miðvikudagur, apríl 22

Ég er uppgefin í dag. Það er svo mikið að gerast í félagslífinu hjá henni Freyju. Á sunnudag fórum við öll í kvöldmat til Maree systur hans Patricks. Yngsti strákurinn hennar átti afmæli, varð 19 ára. Ég og Freyja kíktum svo í heimsókn til Dianne og Milly á mánudaginn. Þær búa bara hérna tveimur götum ofar. Í gær hittum við svo Isabel og Milly (og mömmur þeirra) á kaffihúsi og um kvöldið fór ég á Tupperware kynningu (partý) hjá einni stelpunni í mæðrahópnum. Freyja kom nú reyndar ekki með þangað. Í morgunn fórum ég og Freyja á bókasafnið. Þar var söng og lestratími fyrir litla krakka. Við fórum svo á kaffihús með nokkrum mömmunum á eftir. Já þetta er erfitt líf þegar maður er heimavinnandi húsmóðir ;0P Veit ekki hvernig ég á eftir að höndla að fara að vinna 3 daga í vinnu.

En jæja það eru bara 5 vikur þangað til við leggjum í hann og minna en 6 vikur þangað til við komum til Íslands :0) Ég er leinilega að vona að krónan haldist lág í nokkrar vikur í viðbót. Svo má hún alveg taka góðan kipp upp á við eftir að við erum búin að vera þar. Erla sendi mér lista yfir verð á algengum hlutum á Íslandi um daginn og flest virðist bara vera á svipuðu verði og hér (af því að krónan er svo lág og ástralski dollarinn í hærra lagi). Reyndar kom mér á óvart hvað mjólk er rosalega ódýr á Íslandi. Mun ódýrari en hérna en hins vegar er kók mun dýrara en hér. Það er svo sem í lagi þar sem það er nú hollara að drekka mjólk. Síðan er auðvitað bensínið ennþá dýrara á Íslandi en flest annað er mjög svipað eða kannski aðeins dýrara. En ef að krónan styrkist mikið eða dollarinn lækki þá held ég að manni muni nú finnast hlutirnir dýrir.

Svo er ég búin að vera að selja smá á Ebay undanfarið. Seldi nokkra geisladiska til að byrja með og svo gömul föt sem ég hafði eiginlega aldrei notað. Ég get nú ekki sagt að ég hafi grætt heilmikið á þessu, því eftir að Ebay og PayPal taka gjöldin fyrir þetta þá er nú ekki mikið eftir. Þetta er nú samt áhugavert og hef ég skemmt mér við þetta.

Hérna er svo ANZAC dagur á laugardaginn (minningardagur hermanna í Ástralíu og NZ). Þetta er yfirleitt frídagur hérna en í ár lendir hann á laugardegi. Ég held að Patrick sé að plana að vakna snemma og fara með Freyju á svona minningarathöfn hérna í Ballarat um morguninn. Þetta byrjar um sólarupprás og munu gamlir sem ungir hermenn labba í nokkurs konar skrúðgöngu. Þetta er hins vegar allt of snemmt fyrir mig (klukkan 6:30 held ég). Mér finnst mun meira freistandi að kúra upp í rúmi og fá kannski að sofa út, sem að gerist ekki oft.

Já ég frétti að það séu svo kosningar á Íslandi á laugardaginn. Vona að það fari allir að kjósa og kjósi ekki einhverja vitleysinga, sem er kannski erfitt ef að það eru bara vitleysingar í boði. Annars veit ég ekkert hverjir eru í boði þar sem ég hef nú alveg gjörsamlega misst tengingu við íslensk stjórnmál og þekki ekkert þessa nýju stjórnmálamenn. Í Ástralíu er skylda að kjósa. Patrick fékk tildæmis sekt um daginn afþví hann gleymdi að kjósa í bæjarkosningunum hérna í Ballarat. Hann steingleymdi þeim. Ég þarf nú ekki að kjósa því ég er ekki ástralskur ríkisborgari sem reyndar þýðir að ég má ekki kjósa þó ég myndi vilja það. Talandi um ríkisborgara, þá fékk Freyja sitt fyrsta vegabréf um daginn. Ástralskt rafrænt vegabréf sem gildir í 5 ár. Það verður nú samt svoldið fyndið ef hún notar það þegar hún er 4-5 ára og það verður ennþá með mynd af henni þegar hún var 5 mánaða gömul. Síðan ætlum við held ég að fá íslenskt vegabréf fyrir hana líka. Annars var ég að pæla að taka með okkur fæðingarvottorðið hennar Freyju með okkur til öryggis, sérstaklega þegar ég og Freyja fljúgum bara tvær saman. Ég er sem sagt Íslendingur með ástralskt barn með mér sem er ekki einu sinni með sama eftirnafn og ég. Það ætti nú samt ekki að vera neitt mál held ég. Held það sé bara Kanada sem er með einhver lög um það þegar fólk ferðast með börn.

Ég verð víst að fara að athuga hvað hún Freyja er að prakkarast. Hún er farin að skríða út um allt hús og maður verður að passa upp á hvað er á gólfinu, eða í skriðhæð.

Engin ummæli: