föstudagur, maí 9

Við fórum í sónar á miðvikudaginn sem var auðvitað mjög skemmtilegt. Reyndar var litla krílið eitthvað þreytt og vildi bara sofa sem þýddi að það var ekki hægt að ná voða góðum myndum fyrir myndaalbúmið. En það kom allt rosa fínt út úr sónarnum. Öll stærðarhlutföll eins og þau eiga að vera. Fór líka til ljósmóðurs sama morgun og blóðþrýstingurinn og sykurinn í fínu lagi.

Ég setti svo inn umsókn um fæðingarorlof í vinnunni sem var auðvitað samþykkt. Tek 3 mánuði á fullum launum (hefði getað tekið 6 á hálfum launum) og svo sótti ég um 6 mánuði til viðbótar launalaust. Það er reyndar auðvelt að breyta þessu. Get tekið minna eða meira af launalausu leyfi. Reyndar er yfirmaður minn rosa góður og búinn að segja að mér sé velkomið að vinna eitthvað að heiman ef ég vil og koma svo aftur bara í nokkra daga í viku. Sem sagt ég ræð hvað ég vil vinna mikið þegar ég kem aftur. Hef þess vegna pælt í að kannski eftir 6 mánuði að vinna 1 dag í viku og svo 2 hálfa daga að heiman. Annars verður maður bara að sjá til hvað verður. Finnst samt gott að vinnan sé svona opin fyrir allskonar möguleikum.

Síðan er ég búin að setja upp síðu á barnalandi fyrir krílið: http://barnaland.is/barn/72727
Síðan er nú enn á byrjunarstigi enda krílið ekki komið í heiminn ennþá.

Annars er ekki mikið planað fyrir helgina, bara þetta venjulega heimilisstúss og svo ætlum við að fara að kíkja á barnadóterí, svona meira til gamans. Ég er svo reyndar líka búin að fá saumavél að láni og ætla að reyna að berjast við það að sauma gluggatjöld fyrir nýja eldhúsgluggan okkar. Vona að ég finni eitthvað sætt efni um helgina. Glugginn er nú reyndar ekki alveg nýr, heldur notaður. Einhvernveginn finnst manni gamlir notaðir gluggar passa betur við gamla húsið okkar.

Jæja við ætlum að fara út og fá okkur pizzu. Góða helgi allir!

Engin ummæli: