sunnudagur, febrúar 4

Ég horfði á þessa skemmtilegu mynd á föstudagskvöldið. Þetta er áströlsk mynd og heitir "Kenny" og fjallar um kósetkallinn Kenny. Starfið hans er frekar illa lyktandi. Hann vinnur aðallega við að setja upp og viðhalda kömrum á stórum samkomum/hátíðum. Myndin er náttúrulega full af kúka-og prumpubröndurum. Mér fannst þetta alveg skíthlægileg mynd.

Það er búið að vera steikjandi hiti alla helgina. Ég ætlaði að reyna að taka skápinn í gegn, sem ég er að reyna að gera upp útí bílskúr, en það var allt of heitt til þess. Ég mun setja inn "before and after" myndir af skápnum, ef ég klára hann einhvern tímann.

Í gær fórum við reyndar í smá bíltúr. Við fórum á svona sveitabæjar-uppboð. Þessi uppboð eru mjög vinsæl hérna. Þau eru þegar fólk selur sveitabæ og er að reyna að losa sig við allt draslið sem var á bænum. Þá meina ég allt milli himins og jarðar, traktora, orf og ljá, girðingastaura, verkfæri, húsgögn, húsmuni og dýr. Þetta er sem sagt allt boðið upp. Sumt fer ekki á nema kannski 500 kall, annað er mun dýrara. Þetta er náttúrulega mun betra en að fara bara með allt draslið á haugana. Þarna getur fólk grætt smá pening. Við keyptum samt ekkert á þessu uppboði, það var samt alveg þónokkuð af gömlum verkfærum og vélum sem maður hefði alveg viljað eiga.
Við keyrðum svo bara í lítinn bæ sem heitir Trentham og borðuðum hádegismat. Komum heim í kvöldmat. Ég bjó til Spaghetti Bolognese og við drukkum bjór á meðan við hlustuðum á Lay Low og Emiliu Torrini. Já svona var Laugardagurinn hjá okkur.

Aftur heitt í dag, sunnudag. Við versluðum samt í matinn áður en það varð of heitt í morgunn. Ég keypti mér svo meiri málningu og striga. Fór svo að mála. Ég held ég sé nú engin rosaleg listamanneska. Allaveganna kann ég ekkert að mála. Ég held ég hafi sett meiri málningu á sjálfa mig heldur en á strigann. Það er svo rosalega erfitt að ná þessari málningu af. Þetta er olíumálning og það er alveg sama hvað maður skrúbbar, hún fer ekki af. Við erum að fara á eftir að horfa á fótboltaleik heima hjá vini hans Patricks sem heitir Anthony (Clown). Ég verð að fara í síðbuxur held ég þar sem að fótleggirnir á mér eru mest rauðir og gulir. Ég málaði nefnilega í stuttbuxum. Reyndar eru handleggirnir á mér eins og það sé eitthvað að mér. Þeir eru líka allir rauðflekkóttir.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Umm...laugardagskvöldið hjá ykkur hljómaði rosa vel!!

Olga ekki vissi ég að þú værir svona listatýpa..hvað kemur til að þú ákvaðst að fara að mála alltíeinu?

Sólveig.

Nafnlaus sagði...

En sniðug með málingapensilinn:) maður ætti kannski að fara að athuga þetta líka....prufa að taka upp penslinn og vona að innst inni sé maður smá listamaður í sér...I wish;)
Hafðu það gott í sólinni og hitanum
kv. Ásta Björk