Við erum að fara í dag og kaupa síðustu jólagjafirnar. Eigum eftir að kaupa 3 gjafir og svo ætlum við að reyna að finna sjónvarp og dvd spilara handa okkur :)
Það eru flestar búðirnar hér opnar til miðnættis í dag og á morgunn.
Svona eru jólin...... í Ástralíu:
- Jólin eru ekki næstum því eins hátíðleg og á Íslandi. Fólk er ekki beint að undirbúa jólin með margra vikna fyrirvara. Jólasiðirnir eru náttúrulega samt mismunandi á milli fjölskyldna.
- Flestir eyða aðfangadegi í búðum, svona eins og þorláksmessa á Íslandi.
- Það fara svo margir á jólatónleika á aðfangadagskvöld (Christmas Carols) eða horfa á Jólatónleikana í Melbourne, sem eru stæðstu tónleikarnir.
- Flest ungt fólk fer á djammið á aðfangadagskvöld. Þetta er sennilega mesta djammkvöld ársins fyrir utan gamlárskvöld. Frekar sorglegt finnst mér.
- Jóladagur er svo aðal hátíðisdagurinn. Krakkarnir vakna fyrir allar aldir og vilja fara að opna pakkana frá jólasveininum. Krakkar fá yfirleitt ekki pakka frá foreldrum sínum, heldur eru allir pakkarnir frá jólasveininum.
- Síðan kemur öll fjölskyldan saman í hádegismat á jóladag. Fólk skiptir deginum oft í tvennt. Fer í mat til annarrar fjölskyldunnar í hádeginu og svo til hinnar í kvöldmat.
- Yfirleitt er jóladagur sólríkur og heitur og fólk er létt klætt. Það eru ekki margir sem klæða sig í nein spariföt, allavega eru engir karlmenn í jakkafötum. Dagurinn fer svo yfirleitt í að borða kalkún, skinku og annarskonar mat. Sumir eru með sjávarmat. Svo er drukkið allandaginn. Já Ástralir drekka bjór og vín allan daginn. Það er náttúrulega ekki til sú fjölskylduskemmtun þar sem að ekki er drukkið áfengi hér í Ástralíu. Fólk reynir nú samt að hafa smá hemil á sér á jóladag og það eru ekki margir sem að verða neitt fullir. Svo fara krakkarnir út og eitthvað af karlfólkinu líka að spila Cricket.
- Annar í jólum fer oft í að bara ná sér eftir jóladaginn. Margir koma saman í hádegismat og borða og drekka enn meira.
- Þriðja í jólum má segja að jólin séu búin. Sumir taka meira að segja niður jólaskrautið. Sérstaklega þeir sem settu upp jólatréð 1.des.
Hjá okkur byrja jólin klukkan 6 á aðfangadagskvöld. Ég elda lambasteik með brúnuðum kartöflum. Við munum svo opna pakkana okkar á eftir matinn. Svo passar að horfa á jólatónleikana eftir það allt saman og borða nóa & siríus jólakonfektið sem mamma sendi okkur og drekka kók (ekki bjór). Það er samt hálf skrítið að borða jólamatinn klukkan 6 þegar það er enn hábjart. Það verður ekki dimmt fyrr en klukkan 9. Maður dregur bara fyrir gluggana. Það eiga svo líka að vera köld jól í ár. Það er bara spáð rigningu og vosbúð. Það á bara að fara uppí 14 stiga hiti á jóladag og það er meira að segja spáð snjókomu í fjöllum hinu megin við Melbourne þar sem að skógareldarnir voru. Það finnst öllum þetta náttúrulega alveg ömurlegt. Köld jól! (þó að það séu allir glaðir yfir því að fá regn). Mér finnst þetta alveg frábært. Því ömurlegra sem veðrið verður því ánægðari verð ég. Ég mun hoppa af kæti ef við fáum slyddu!!!! hahaha....
Jæja, ég vil bara óska öllum Gleðilegra Jóla. Vona að þið hafið það öllsömul gott og ekki borða yfir ykkur :) Ég mun pottþétt borða yfir mig.
3 ummæli:
Pfff... frekar vil ég íslensku hátíðlegu formlegu jólin í vonda veðrinu ;D
Gleðileg Jól!
(Mmmmmm...hangikjötslykt hehe)
Gleðileg jól Olga mín,
Það er örugglega bara fínt að eyða jólunum í Ástralíu. Allavega skemmtilegt að lesa lýsinguna á jólahefðunum þar í landi.
Kveðja,
Magga
Gleðileg jól!! :)
Skrifa ummæli