Frábært að það sé komin helgi :)
Fjölskyldan hans Patricks var að koma ofan af fjöllum. Nokkrar fjöskyldur fóru saman í skíðaferð upp í fjall sem heitir Mt Bulla. Þau voru þar í 3 daga og skemmtu sér vel, það var samt ekki mjög mikill snjór. En samt nóg fyrir krakkana. Skíðasvæðin eru svona sirka 3 tíma akstur frá Ballarat (2 klst frá Melbourne). Jú jú það snjóar sum staðar í Ástralíu. Landið er ekki bara eyðimerkur og strendur.
Það voru svo fjölskylduboð í gærkvöldi heima hjá Maureen (tengdó). Kona bróður hans Patricks (sem heitir líka Maureen) og dóttir þeirra héldu uppá sameiginlegt afmæli. Hún varð fimmtug (7.águst, sama dag og mitt afmæli - svoldið scary ég veit) og stelpan Kylie verður 21 núna bráðum. Sem sagt systur og bróðir hans Patricks, plús makar og börn voru öll saman komin heima hjá Maureen. Ætli þetta hafi ekki verið um 40 manns. Fjölskylduboð hérna eru dálítið frábrugðin boðum heima á Íslandi. Það er ekki sötrað kaffi og borðaðar kökur. Það er drukkinn bjór/vín og borðað pizzu. Reyndar eru svo einhverjir sem fá sér kaffi á eftir, og svo var reyndar líka borðað eina súkkulaði afmælisköku......en þið vitið hvað ég meina.
Það sem er mest öðruvísi við þessi boð er hávaðinn. Já það er sko hávaði, sérstaklega þar sem krakkarnir eru hlaupandi og öskrandi um stofuna, og það liggur við að fullorðna fólkið þurfi að öskra á hvort annað. Ég held ég sé samt farin að venjast þessu því þetta var ekkert að pirra mig í gær. Fannst þetta bara gaman. Kannski af því ég drakk næstum heila flösku af hvítvíni.... ha ha.
Patrick er að vinna í dag. Hann er enn að planta trjám, enda góður peningur í þessu. Hann ætti að vera búinn að vinna snemma í dag samt.
Ég er að plana að reyna að elda eitthvað gott um helgina. Ætla í búð á eftir og kaupa hitt og þetta og elda eitthvað úr nýju matreiðslubókinni minni. Er að hugsa um asískan rétt sem heitir: núðlur með kjúklingi, chilli og kastaníuhnetum og ítalskan Canneloni með spínat og ricotta osti, sem er rosa góður. Gott að elda hann og setja afganga í frysti. Svo get ég tekið afgangana með mér í vinnuna.
Við ætlum svo að fara og kaupa okkur kryddjurtir og setja í beðin á veröndinni hjá okkur. Við erum með steinselju og vorlauk en mig langar að setja niður Basiliku og Koríander. Svo líka tómata (og jafnvel papriku) og sítrónutré, en það er of snemmt fyrir tómatana því það er enn of kalt. Sítrónutréð ætti samt að vera í lagi. Kaupum bara lítið tré í potti þannig að við getum tekið það með okkur þegar við flyjum héðan (hvenær sem það nú verður).
Það er svo gaman, sérstaklega þegar maður kemur frá köldu landi eins og Íslandi, að geta ræktað allskonar ávexti og grænmeti sem að er ómögulegt að rækta utandyra á Íslandi. Manni finnst þetta svo spes. Ég meina, að geta bara haft td. eplatré, perutré og plómutré í garðinum og tínt af þessu ávexti. Fólk tekur þessu sem sjálfsögðum hlut hér, en mér finnst þetta alveg æðislegt.
1 ummæli:
Voðalega ertu orðin mikil húsfrú. Bara farin að rækta kryddjurtir og grænmeti í garðinum hjá þér! ;)
Kveðja,
Magga
Skrifa ummæli