miðvikudagur, apríl 12

Þar sem ég hef nú búið í Ástralíu í svoldinn tíma þá getur maður ekki hjá því komist að kynnast hinum undarlegustu siðum og venjum í daglegu lífi Ástralans. Hérna koma nokkur dæmi um ástralskar venjur. Ég notaði Google Image til að gera þetta svona skemmtilega myndrætt.

1. VEGEMITE er "mysingur" Ástralans. Þetta er sem sagt álegg sem að er notað mest á ristað brauð og lítur út eins og skítur og lyktar alveg hræðilega. Hef ekki getað smakkað þetta fyrir lyktini. Hef samt heyrt frá öðrum 'útlendingum' að Vegemite bragðist jafnvel enn verr heldur en það lyktar. Áströlum þykir þetta hins vegar hið mesta lostæti. Vegemite hefur svipaða innihaldslýsingu og malt og á víst að vera gífurlega hollt. Þetta er víst eitthvað sem maður verður að alast upp við til að venjast bragðinu og lyktinni.


2. Ástralskar "túttur". Þetta eru ástralskir vinnuskór. Þú ert sko ekki maður með mönnum nema að þú eigir allanveganna 1 par af þessum. Það ganga allir í svona skóm hérna í sveitinni á virkum dögum. Sumir skipta um skó þegar þeir eru búnir í vinnunni en margir fara aldrei út þeim.


3. Bjór í Ástralíu kemur ekki í stórum glösum. Maður getur yfirleitt bara fengið POT (sem er sirka lítill bjór) eða GLASS sem er ekki meira en svona 1/2 lítill bjór. Þetta þýðir bara eitt. Maður er stanslaust á barnum að kaupa bjór. En það er eitt gott við þennan sið. Það er að bjórinn nær aldrei að verða volgur.


4. Ástralir kunna ekki að elda góða lambasteik. Lambakjöt er mjög gott í Ástralíu nema þegar Ástralir elda það. Steikinni er bara hent í ofninn, ekkert kryddað. Síðan er það eldað til dauða með nokkrum kartöflum. Þegar kjötið er tilbúið er það sneitt og sett aftur í ofninn til að halda því heitu á meðan sósan er búin til (þetta þýðir að kjötið verður skrafaþurrt). Sósan er búin til úr dufti og hefur ekkert bragð. Þetta er borið fram með ofnsteiktum olíublautum kartöflum, baunum með myntubragði, dauðasoðnu graskeri og gulrætum. Ég verð að viðurkenna að ég er komin með algjört ógeð af lambasteik því þetta er borið fram hvern einasta sunnudag.

5. Ástralskir menn heilsa ekki konum með handabandi. Okei ekki alltaf, en reglan er yfirleitt svona: Karlmaður er kynntur fyrir pari. Mennirnir heilsast með handabandi og segja G´Day. Karlmaðurinn heilsar konunni með því að kinka kolli og segja G´Day. Konan getur náttúrulega rétt út höndina og hann mun þá heilsa með handabandi en ef hún gerir það ekki þá mun karlmaðurinn ekki gera það heldur. Konan sem sagt ræður hvernig hún heilsar. Ég veit, hljómar fáranlega.

6. Ástralir keyra vinstra megin í umferðinni. Þetta þýðir að stýrið er hægra megin í bílnum og gírstöngin vinstra megin við ökumanninn. Ef að svo vill til að fólk gleymi að það er vinstri umferð hér og keyrir hægra megin þá er mjög líklegt að það sjái þetta skilti.

7. BURGER KING heitir HUNGRY JACK'S í Ástralíu. Veit ekki af hverju en Burger King nafnið virkaði ekki eins vel. Eitt í viðbót. Áströlum finnst geðveikt gott að setja rauðrófu í hamborgara. Ekki að ég sé að kvarta því mér finnst rauðrófur góðar.


8. Fótbolti í Ástralíu er ekki eins og fótbolti í Evrópu. Ef að Ástralir tala um fótbolta þá eru þeir að tala um Ástralskan Fótbolta (Australian Rules Football). Í þessum fótbolta má nota bæði hendur og fætur og það má líka reyna að meiða andstæðingin eins mikið og hægt er, að því virðist. Hérna er Evrópskur fótbolti kallaður "SOCCER".

9. Maður getur ekki annað en tekið eftir að Ástralir eru íþrótta óðir. Það eru alltaf íþróttir í sjónvarpinu. Dagblöðin eru full af íþróttum og þeir tala 90% um íþróttir. Þetta myndi gera útaf við hinn besta Íslending. Uppáhaldsíþróttir Ástrala eru: Cricket, Ástralskur Fótbolti, Ruðningur, Tennis, Sund, Frjálsar Íþróttir, Golf, Formula 1, Fótbolti (Soccer), Netbolti, Brimbretti, Hjólreiðar..... Já sem sagt eiginlega allar íþróttagreinar. En ef maður nefnir Handbolta við Ástrali setja þeir bara upp stór augu og breytast í eitt spurningamerki. Það er örugglega eina íþróttagreinin sem Ástralir vita ekkert um.

10. Drottningin. Jú Ástralir eru enn þá undir hinu Breska konungsveldi. Ástralir meira að segja halda upp á afmælisdag drottningarinnar. Það er almennur frídagur hér. Afmæli drottningarinnar er ekki einu sinni almennur frídagur í Bretlandi. Ég held að það sé eina ástæðan fyrir því að Ástralir hafa ekki losað sig undan krúnunni, því þeir muni missa frídag. Þeir hafa ekki fattað að í staðinn mun mjög líklega koma annar frídagur sem heitir "Sjálfstæðisdagur".

1 ummæli:

Aldan sagði...

Ástralar eru undarlegir... þessar lýsingar sýna að þeir hljóta að vera voða spes ;) Vonandi helduru sönsum meðan þú ert þarna úti hehe
Hanna verður ekkert ánægð að heyra þetta með handboltann! ;)